Meirihluti vill evru hér á landi

Rúmlega 55% eru fylgjandi evru en 30% á móti, samkvæmt nýrri skoðanakönnun, sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðanaðarins. Óákveðnir eru 14%.

Karlar eru hlynntari upptöku gjaldmiðilsins en konur en tæp 63% karla vilja taka upp evru en 48% kvenna. Þá eru færri grunnskólaprófsmenntaðra fylgjandi upptöku evru, eða 49% til móts við 59% háskólamenntaðra.

Meirihluti þeirra sem eru með yfir 800 þúsund krónur í laun á mánuði eru fylgjandi evru, eða 63% og 24% eru á móti. Þá er helmingur þeirra sem hafa undir 250 þúsund krónum í mánaðarlaun fylgjandi gjaldmiðlinum en 40% á móti. 

Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru jákvæðari gagnvart evru en íbúar landsbyggðarinnar. Um 61% höfuðborgarbúa er fylgjandi til móts við rúm 48% íbúa landsbyggðarinnar.

Ekki er afgerandi munur eftir aldri fólks. Flesta fylgjendur evru er þó að finna í aldursflokknum 45-54 ára eða 60%.

Um 78% stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru hlynntir því að taka upp evru en 13% eru því andvígir. Þegar litið er til  stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru 50% hlynntir en 35% þeirra eru því andvígir.
Þeir eru fleiri í öllum flokkum sem eru hlynntir upptöku evru en þeir sem eru andvígir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert