Óvíst hvort olíufélögin lækka verð

Engar breytingar hafa orðið á útsöluverði á bensíni og diselolíu hjá olíufélögunum þrátt fyrir umtalsverðar lækkanir á hráolíu á heimsmarkaði að undanförnu. Eldsneytisverð hefur að mestu haldist óbreytt hjá félögunum frá 20. ágúst. 

Talsmenn olíufélaga sem rætt var við í dag benda á að á móti nýlegum lækkunum á heimsmarkaði vegi óhagstæð gengisþróun sem standi í vegi fyrir því að unnt sé að lækka eldsneytisverðs til neytenda hér á landi eins og sakir standa.

Einn viðmælandi segir sveiflurnar á alþjóðamörkuðum ótrúlegar en á móti komi að gengisvísitalan hafi farið upp í 170 og aldrei verið hærri. Styrking á gengi Bandaríkjadals hafi étið upp verðlækkunina Ef gengið hefði haldist stöðugt síðustu tvær til þrjár vikur væri búið að lækka bensínverð hér á landi um 6-7 krónur. Haldi hráolíuverð hins vegar áfram að lækka næstu daga hljóti það að kalla á einhverjar breytingar á útsöluverðinu hér.

Algengasta verð á 95 oktana bensíni í sjálfsafgreiðslu er  í dag 165,70 kr. Og á díselolíu 181,60. Verð á hráolíu á heimsmarkaði nálgast nú 95 dali en svo lágt hefur verðið ekki verið  í sjö mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka