Um aldamótin 1900 borðuðu Reykvíkingar óhemju magn af rúgbrauði, en brauðneyslan þá var tvöfalt meiri en hún er í dag. Þetta segir Laufey Steingrímsdóttir, prófessor og formaður félagsins Matur-saga-menning, sem efnir til sýningar um mat og mataræði Reykvíkinga 20 öld.
Á sýningunni, sem ber nafnið „Reykvíska eldhúsið - matur og mannlíf í hundrað ár“, verður brugðið upp svipmynd af matarsögu Reykjavíkur.
Þrumari með margaríni (rúgbrauð með smjörlíki), þurrkaður fiskur, saltfiskur og kaffi uppistaðan í neysluvenjum Reykvíkinga um aldamótin 1900. Eitthvað var þó um saltkjöt og slátur að sögn Laufeyjar.
Lítið sem ekkert um ávexti og grænmeti
Neysla á próteini, kolvetni og fitu hér á árum áður var svipuð því sem gerist nú á tímum, en lítið var um neyslu grænmetis og ávaxta. Sykurneysla Íslendinga í dag er er hins vegar miklu meiri en var fyrir 100 árum.
Það er óþarfi að fjölyrða mikið um innkaupakörfu okkar nútímamanna, en ýmislegt forvitnilegt kemur í ljós ef dæmigerð neysla fjögurra manna fjölskyldu um aldamótin 1900 er skoðuð.
Þar gefur að líta 6 kg af rúgbrauði, 700 gr. af hrísgrjónum, 6,8 lítra af skyri, 1,7 kg af kartöflum, 400 gr. af kandíssykri, 8,6 lítra af sýru, 200 gr. af kaffi, rúm 100 gr. af kaffibæti og 10 lítra af nýmjólk, svo nokkur dæmi séu tekin.
Fjölbreyttur innflutningur
Laufey bendir á að um 1900 hafi innflutningur verið ótrúlega fjölbreyttur. „Það voru verslanir þar sem að hillurnar svignuðu undan allskyns innfluttum kræsingum. Það kemur kannski verulega á óvart,“ segir Laufey.
Sýningin verður opnuð með formlegum hætti 26. september nk. í Austurstræti 10.
Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna hér.