Varað við vatnsveðri annað kvöld

Veðurstofan varar fólk við miklu vatnsviðri sem brestur á seint annað kvöld og stendur fram á miðvikudagsmorgun. Er fólk hvatt til að huga að niðurföllum og hreinsa vel frá þeim til að forðast flóð.

Um er að ræða djúpa haustlægð, 960 hp, sunnan 20 m/sek sem snýr sér í SV hvassviðri á morgun, miðvikudag, með ört minnkandi rigningu. Út vikuna er síðan spáð SV-roki með nokkurri vætu.

Fram kemur á veðurvef Einars Sveinbjörnssonar, að rekja megi þetta vatnsveður m.a. til fellibyljarins Ike, sem fór yfir Bandaríkin um helgina. Segir Einar að leifar Ike hafi verið fangaður af vestanvindabeltinu í háloftunum og fari hratt yfir. Veðrið var í dag yfir Nýfundnalandi og er á  hraðri leið til móts við lægðina við Ísland.

Nýtt tungl var í gær og er því stórstreymt um þessar mundir. Samkvæmt  upplýsingum frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er fylgst náið með framvindu mála með það fyrir augum að gefa út viðvaranir á Suðvesturhorninu vegna ágangs sjávar ef þurfa þykir.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert