Alls hafa 22 alþingismenn ráðið sér jafn marga aðstoðarmenn í samræmi við ný lög og reglur sem tóku gildi í mars á þessu ári. Aðstoðarmenn formanna stjórnarandstöðuflokkanna fá fullt þingfararkaup, 541.720 krónur, en aðstoðarmenn „óbreyttra“ þingmanna fá 25% af þingfararkaupi, um 135.000 krónur.
Formenn stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, eiga rétt á að ráða sér aðstoðarmenn í fullt starf. Alþingismenn úr Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi, sem eru ekki jafnframt ráðherrar eða flokksformenn, eiga rétt á að ráða sér aðstoðarmann í þriðjungsstarfshlutfall.
Þrír þingmenn sem eiga rétt á aðstoðarmanni hafa ekki nýtt sér réttinn, þeir Árni Johnsen, Kjartan Ólafsson og Kristinn H. Gunnarsson, skv. upplýsingum á vef Alþingis.