Bjarg féll úr Klifinu í Eyjum

Talið er að grjótið vegi um 30 tonn.
Talið er að grjótið vegi um 30 tonn.

Stærðarinnar bjarg féll úr Klifinu við Friðarhöfn í Vestmannaeyjum um klukkan 13 í dag.  Bjargið, sem er rúmir ellefu rúmmetrar, skoppaði niður hlíð fjallsins og staðnæmdist aðeins um 1 metra frá vegarslóða undir fjallinu. 

Hrunið kom fram á jarðskjálftamælum, sem  eru í brekkunni sunnan við sprönguna,  klukkan 13:02. 

Ingvar Atli Sigurðsson, jarðfræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, segir við vefinn Eyjafrettir.is, að samkvæmt mælingu sé bjargið um 30 tonn að þyngd.  Það virðist hafa fallið úr klettinum milli Litla Klifs og Klifs, skoppað niður hlíðina og stoppað  við veginn. Sumstaðar séu um hálfs metra djúp för eftir bjargið.

Aðspurður sagðist Ingvar ekki vera viss um hvort tengja mætti hrunið við jarðskjálfta í Krýsuvík í morgun.  „Það er erfitt að segja til um það en það hefur verið mikið vatnsveður undanfarið og bergið er krosssprungið þarna.  Þannig að hugsanlega hefur einfaldlega verið að grafast undan þessu í einhvern tíma.  Ef einhver hreyfing hefur svo verið í morgun þá getur vel verið að hún hafi komið þessu af stað en sjálfsagt eru það samverkandi þættir að bjargið hrynur niður í dag.“

Grjóthnullungurinn, sem hrundi úr Klifinu í dag.
Grjóthnullungurinn, sem hrundi úr Klifinu í dag. mynd/eyjafrettir.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka