Annað hvort á að styrkja krónuna til þess að nota hana til frambúðar eða taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi. Hvorug leiðin er einföld og báðar krefjast fórna. Þetta er niðurstaða skýrslu gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins sem kynnt var á hádegisverðarfundi í dag.
Að mati skýrsluhöfunda krefjast báðar leiðir breytinga í stjórnun efnahagsmála þjóðarinnar. Benda þeir á að þær miklu sveiflur sem verið hafi um árabil í íslensku efnahagslífi samrýmist ekki því opna viðskiptaumhverfi sem íslenskt atvinnulíf vinni nú í. Ef krónunni verði haldið til frambúðar dugi engar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að spákaupmennsku magni upp sveiflurnar ef ójafnvægi verði of mikið í þjóðarbúskapnum. Á sama hátt, ef evra yrði tekin upp, myndi of mikil spenna í þjóðarbúskapnum valda staðbundinni verðbólgu sem á endanum myndi rýra samkeppnisstöðu þjóðarinnar miðað við samkeppnislöndin.
Í máli Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, fyrrverandi alþingismanns og formanns gjaldmiðilsnefndarinnar, kom fram að frá árinu 1995 hefði íslenskt þjóðfélag verið á hraðri leið frá hefðbundnu framleiðslusamfélagi til þjónustu- og þekkingarsamfélags. Á þeim uppgangstímum sem ríkt hefðu á síðustu árum hefði hins vegar þurft að standa betur að hagstjórninni. Sagði hann það mat nefndarinnar að óheppilegt hefði verið að samtímis hefði verið farið í aðgerðir sem stuðluðu að aukinni þenslu, s.s. með miklu framboði húsnæðislána fjármálafyrirtækja og skattalækkunum hins opinbera. Á sama tíma hafi einnig verið nánast ótakmarkaður aðgangur að erlendu lánsfé á lágum vöxtum sem hafi orsakað mikla aukningu í neyslu og framkvæmdum á nær öllum sviðum.
Gylfi Magnússon, hagfræðingur og dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sagði einsýnt að tilraunastarfsemi síðustu ára í skipulagi peningamála væri dæmd til að mistakast. Sagði hann nauðsynlegt að gerbreyta allri umgjörð Seðlabanka Íslands. Benti hann á að aðgerðir seðlabanka virki ekki nema menn hefðu trú á þeim, óháð því hvort bankinn væri að taka réttar ákvarðanir eða ekki.
Björn Rúnar Guðmundsson, hagfræðingur og forstöðumaður í Greiningardeild Landsbanka Íslands, sagði niðurstöðu skýrslunnar ekki koma á óvart. Sagðist hann hins vegar ekki jafn sannfærður og skýrsluhöfundar um að það væri í reynd raunhæfur möguleiki að halda krónunni.
Að sögn Björns var tilraunin með flotkrónuna sem gerð var þegar lögum um Seðlabankanum var breytt árið 2001 vissulega ómaksins virði. „Þetta var ekki röng ákvörðun á sínum tíma. En núna er hins vegar mikilvægt að læra af reynslunni,“ sagði Björn og tók fram að í dag blasi allt annar veruleiki við auk þess sem þekking manna á litlum hagkerfum sé mun meiri núna en þá.
Að mati Björns eru í núverandi ráðstöfun peningamála hérlendis innbyggðir ákveðnir brestir sem gera það að verkum að kerfið gengur ekki upp. Annars vegar er verðtrygging of útbreidd sem geri það að verkum að Seðlabankinn geti ekki haft áhrif á vaxtamyndunina í hagkerfinu og hins vegar sé of útbreidd notkun á gengistryggðum erlendum lánum sem Seðlabankinn eigi erfitt með að hafa áhrif á með skammtímavöxtum.
Inntur eftir því hvernig flokksforystan hygðist nýta sé niðurstöður skýrslunnar sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, ljóst að útfæra þyrfti báðar leiðir en hins vegar væri það síðan þjóðarinnar að kjósa um endanlega niðurstöðu.
„Við núverandi aðstæður í íslensku efnahagslífi þarf ríkisstjórnin að vera vakandi. Því miður hefur hún stungið hausnum í sandinn og gjarnan sagt að aðgerðarleysið væri best,“ sagði Guðni og kallaði eftir nýrri þjóðarsátt ríkisstjórnar, samtaka vinnumarkaðarins og bankakerfisins til þess að takast á við skammtímavandann með sem árangursríkustum hætti.
„Hver sem verður mynt framtíðarinnar á Íslandi þá mun enginn leysa skammtímavandann fyrir okkur nema við sjálf. Allar þjóðir eru núna að takast á við það stóra verkefni að eiga við skammtímavandann í sínum efnahagsmálum, hugsa um sitt fólk, sína atvinnuvegi og þetta verðum við að gera með sama hætti.“