Starfshópur um fyrirkomulag flutningsjöfnunar leggur til að flutningsjöfnunarsjóður olíuvara verði starfræktur áfram, en að lögin um hann verði endurskoðuð.
Þetta kemur fram í skýrslu starfshópsins sem viðskiptaráðherra skipaði í árslok í fyrra. Hópurinn átti meðal annars að meta þau áhrif sem yrðu þegar flutningsjöfnunarsjóður olíuvara yrði lagður niður, með hvaða hætti ætti að mæta þeim og jafna flutningskostnað almennt.
Starfshópurinn telur að verði flutningsjöfnunarsjóður olíuvara lagður niður „sé raunveruleg hætta á því að eldsneytisverð á afskekktari svæðum landsins verði hærra en á þéttbýlli svæðum þar sem arðbærara er að halda úti sölu á eldsneyti. Þá telur starfshópurinn að ekki liggi fyrir með óyggjandi hætti að starfsemi sjóðsins geti talist samkeppnishamlandi á afskekktari svæðum. Starfshópurinn mælir með því að sjóðurinn verði starfræktur áfram en að lögin um hann verði endurskoðuð m.a. með það í huga að afmarka á annan hátt þau landsvæði sem jöfnunin tekur til.“
Í niðurstöðum hópsins kemur fram það álit að ríkjandi fyrirkomulag við jöfnun á flutningskostnaði olíuvara sé að mörgu leyti einfalt og skilvirkt. Í sambandi við flutningsstyrki til framleiðslufyrirtækja leggur starfshópurinn til að tímabundið verði komið á sambærilegu kerfi og gildir í Noregi. Sú ívilnun sem felist í reglunum þar flokkist sem ríkisstyrkur samkvæmt þeim reglum sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu og telja verði líklegt að Eftirlitsstofnun EFTA samþykkti sambærilegt kerfi, aðlagað íslenskum aðstæðum.
Varðandi sjóflutninga vill hópurinn að lagt verði mat á stórflutningaþörf um landið og áhrif þess á vegakerfið í sliti á þjóðvegum. Ennfremur að lagt verði mat á hugsanlegan kostnað við rekstur strandflutningaskips og væntanlegan hlut ríkisins eftir útboð.