Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvetur fólk til að huga að lausamunum, svo sem garðhúsgögnum og leikföngum, og fylgjast með veðurspá en búast má við sunnanstormi í kvöld og nótt og mikilli rigningu á sunnan og vestanverðu landinu. Vindhraði er þegar kominn yfir 20 metra á sekúndu í hviðum á Hellisheiði og á Reykjanesbraut.
Þá verður stórstreymt og eru eigendur báta hvattir til að huga að þeim.
Um er að ræða fyrstu haustlægðina. Veðurstofan spáir allt að 25 metrum á sekúndu á öllum spásvæðum nema Suðaustanlandi. Á höfuðborgarsvæðinu er spáð 22 m/s á Reykjavíkurflugvelli í nótt og allt að 30 m/s í vindhviðum.