Fréttastofur RÚV sameinaðar

Óðinn Jónsson ræðir við fréttamenn eftir starfsmannafund RÚV í dag.
Óðinn Jónsson ræðir við fréttamenn eftir starfsmannafund RÚV í dag. mbl.is/G. Rúnar

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, tilkynnti á starfsmannafundi í morgun, að fréttastofur Útvarps og Sjónvarps yrðu sameinaðar og yrði Óðinn Jónsson, sem verið hefur fréttastjóri Útvarpsins, fréttastjóri sameinaðrar fréttastofu.

 Broddi Broddason, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Margrét Marteinsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir verða varafréttastjórar sameiginlegrar fréttastofu. Íþróttadeild RÚV verður hluti hinnar nýju fréttastofu.

Að sögn Óðins verður engum sagt upp vegna sameiningarinnar og hún tekur gildi strax í dag. Í samtali við mbl.is segir Óðinn að Elín Hirst, sem hefur gegnt starfi fréttastjóra Sjónvarps, muni væntanlega taka að sér önnur verkefni hja Ríkisútvarpinu en ekki hafi verið endanlega gengið frá samkomulagi þar að lútandi.

Óðinn segir að breytingin sé engin kollsteypa á starfsemi fréttadeilda RÚV en næstu vikur verði notaðar í að koma breytingunum í framkvæmd.

„Fréttastofur Ríkisútvarpsins og íþróttadeild hafa verið sameinaðar undir merki Fréttastofu RÚV. Markmiðið með sameiningunni er að efla  og bæta fréttaþjónustu RÚV í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum.   

Um áttatíu manns starfa á Fréttastofu RÚV eftir sameininguna - fréttamenn, dagskrárgerðarfólk,  tæknimenn og aðstoðarfólk. Undir fréttastofuna heyra svæðisstöðvar og ritstjórn ruv.is. Þá færist núverandi íþróttadeild undir fréttastofuna," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert