Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í dag reglugerð sem tryggir lífeyrisþegum ákveðna lágmarksframfærslu á mánuði. Eftir breytinguna verður lágmarksframfærslutrygging einstaklinga 150.000 krónur á mánuði í stað ríflega 137.000 króna áður, og hjóna 256.000 krónur á mánuði í stað 224.000 króna áður.
Verkefnisstjórn sem skipuð var af félags- og tryggingamálaráðherra og vinnur að endurskoðun almannatryggingakerfisins var í mars á þessu ári falið að móta tillögur að sérstöku lágmarksframfærsluviðmiði fyrir lífeyrisþega og skyldi það meðal annars taka tillit til hækkunar lægstu launa í síðustu kjarasamningum. Reglugerðin byggist á tillögum nefndarinnar.
Lágmarksframfærslutryggingin er veitt með greiðslu sérstakrar uppbótar frá Tryggingastofnun ríkisins. Við útreikning uppbótarinnar eru lagðar saman allar tekjur lífeyrisþegans, þ.e. bætur almannatrygginga, uppbót á eftirlaun, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnutekjur og fjármagnstekjur.
Lágmarksframfærslutryggingin hækkar árlega á sama hátt og bætur almannatrygginga og verður næsta hækkun 1. janúar 2009. Skal hækkunin taka mið af launaþróun en jafnframt skal tryggt að hækkunin sé aldrei minni en nemur hækkun neysluvísitölu.
Samtals munu rúmlega um 4000 einstaklingar fá greiðslur á grundvelli reglugerðarinnar. Þar af eru um 2100 ellilífeyrisþegar og tæplega 1900 örorkulífeyrisþegar.
Þeir sem njóta mests ávinnings af þessari breytingu eru öryrkjar sem hafa lága aldurstengda örorkuuppbót. Áætlað er að tekjur rúmlega 750 örorkulífeyrisþega muni hækka um 10.000 krónur eða meira á mánuði. Hækkun til þeirra getur að hámarki numið um 16.000 krónum á mánuði.