Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins veitti aðstoð í kvöld vegna vatnsleka og foks m.a. í Mosfellsbæ, Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi.
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar sinntu í kvöld nokkrum útköllum vegna óveðursins.
Nokkrar beiðnir höfðu borist um aðstoð á Suðurnesjum, m.a. fuku þakplötur við gömlu sundlaugina í Keflavík og girðing, tunnur og trampólín fóru af stað.
Á höfuðborgarsvæðinu hafa þakplötur og vinnupallur fokið. Einnig var tilkynnt um laust dót sem var að fjúka af vinnupalli og tjald fornleifafræðinga í Aðalstræti. Beiðnir um aðstoð höfðu komið frá
Hafnarfirði, Reykjavík og Kópavogi. Í of mörgum tilfellum var um slæman frágang á vinnusvæðum að ræða.
Snarvitlaus veður var komið í Ólafsvík í kvöld, stormur og mikil rigning. Sjómenn voru í kvöld að treysta landfestar báta sinna. Menn töldu að vindhraðinn væri ekki undir 30 m/s í verstu hviðunum.
Laust fyrir klukkan 22 var óskað eftir aðstoð björgunarsveitar á Hellissandi vegna þakplatna sem voru að fjúka af gömlum bílskúr. Þá var yfir 20 m/s meðalvindur og yfir 30 m/s í hviðum á Hellissandi.
Samkvæmd sjálfvirkri veðurstöð Vegagerðarinnar við brúna yfir Kolgrafarfjörð sló meðalvindur í 28 m/s og vindhviður allt að 40 m/s laust eftir kl. 21 í kvöld.