„Okkur þótti rétt, í tilefni af þessari sýningu, að tilkynna það að ferðaþjónustan og ríkisstjórnin hafa tekið höndum saman um að verja sameiginlega að minnsta kosti 100 milljónum króna í sameiginlegt átak til þess að reyna að fá fleiri útlendinga til að velja Ísland sem áfangastað núna í vetur,“ sagði Össur Skarphéðinsson, iðnaðar og ferðamálaráðherra, á ferðakaupstefnunni Vestnorden sem nú er haldin í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda.
Össur sagði jafnframt að alkunna væri að blikur væru á lofti í efnahagsmálum heimsins og ákveðinn kvíði væri í ferðaþjónustunni.
„Hún hefur gengið vel og er ákaflega mikilvæg fyrir okkur en fulltrúar hennar hafa tjáð mér sem ferðamálaráðherra að þeir beri mikinn kvíðboga fyrir vetrinum. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja úr sínum sjóðum 50 milljónum króna og ferðaþjónustan kemur á móti með að minnsta kosti sömu upphæð. Þetta fer allt saman í það að kynna Ísland á helstu markaðssvæðum okkar; á Bretlandseyjum, á Norðurlöndunum, í Evrópu annars staðar og, að sjálfsögðu, í Bandaríkjunum,“ sagði Össur og bætti við að miklar væntingar væru gerðar til samstarfsins.
Ferðamálastjóri hefur séð um útfærslu samstarfsins og Össur þakkaði honum og þeim sem við ferðaþjónustu starfa gríðargott samstarf.
„Þetta sýnir það að ríkisstjórnin hefur hlustað á atvinnugreinina og hún er líka með þessu handtaki og liðsinni að sýna það að hún meinar það sem hún segir þegar hún hefur lýst því yfir að hún ætlar sér að styrkja stoðir ferðaþjónustunnar. Þetta er einungis eitt skref. Ég vona að ferðaþjónustan sjái að þó að hart sé í ári núna að þegar næsta fjárlagafrumvarp lítur dagsins ljós eftir nokkrar vikur að ríkisstjórnin stendur við það sem hún segir,“ sagði Össur.
Um 560 þátttakendur taka nú þátt í Vestnorden-ferðakaupstefnunni, sem er sú 23. í röðinni. Ferðamálayfirvöld á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum hafa staðið fyrir kaupstefnunni árlega í rúma tvo áratugi. Ferðamálasamstök Norður-Atlantshafsins (NATA) sem stofnuð voru af löndunum þremur í ársbyrjun 2007 og tóku þá m.a. við starfsemi Vestnorræna ferðamálaráðsins. Vestnorden er haldin til skiptis í Grænlandi, Færeyjum og á Íslandi.