Rússarnir í 35 sjómílna fjarlægð frá landi

 Frá því að rússneskar herflugvélar fóru aftur að láta á sér kræla við Íslandsstrendur eftir að bandaríska herliðið hvarf af landi brott árið 2006 hafa Rússarnir næst farið í um 35 sjómílna fjarlægð frá landi, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Lofthelgi Íslands er 12 sjómílur.

Það er ekkert sem bannar Rússum að fljúga um loftvarnarsvæðið enda hefur það enga formlega stöðu að þjóðarrétti. Mörk þess eru ákveðin einhliða. Með því einu að fljúga inn fyrir varnarsvæðið hafa Rússar því engar reglur brotið.

Bandaríkjaher og yfirherstjórn Atlantshafsbandalagsins ákváðu á sínum tíma hvert væri loftvarnarsvæði Íslands. Eftir að bandaríski herinn hvarf héðan ákvað NATO, í samráði við íslensk stjórnvöld, að loftvarnarsvæðið yrði óbreytt, að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. Mörk íslenska loftvarnarsvæðisins liggja upp að loftvarnarsvæðum annarra aðildarríkja NATO og er það hluti af loftvarnarsvæði NATO.

Frá 2006 hafa rússneskar herflugvélar farið í 18 ferðir um loftvarnarsvæði Íslands. Að sögn Urðar hafa Rússar aðeins tilkynnt um flug í einu tilviki en að öðru leyti hafa þeir ávallt komið óboðnir og án fyrirvara. Slíkt sé ekki vel séð af íslenskum stjórnvöldum, bæði vegna þess að um er að ræða sprengjuflugvélar en einnig vegna þess að rússnesku vélarnar tilkynna ekki komu sína inn í íslenska flugstjórnarsvæðið. Urður bendir á að mjög hafi dregið úr vígbúnaði á norðurslóðum, í kjölfar þess að kalda stríðinu lauk. Flug rússnesku sprengjuflugvélanna í gegnum íslenska loftvarnarsvæðið gangi þvert á þessa þróun og engin sjáanleg ástæða sé fyrir því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert