Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir ekkert hafa komið fram um að íslensk stjórnvöld hafi farið á svig við lög þegar ákvarðanir voru teknar um símahleranir í kalda stríðinu. Þetta sagði hann á fundi Sagnfræðingafélags Íslands, en erindi sitt nefndi hann „Kalda stríðið - dómur sögunnar."
„Ef fyrir lægi staðfest vitneskja um lögbrot af hálfu íslenskra stjórnvalda hikaði ég ekki við að mæla með viðbrögðum til að rétta hlut þeirra sem máttu þola órétt vegna slíkra brota. Þá kæmi til álita að setja sérstök lög til að auðvelda fórnarlömbum að leita skaðabóta. Ekkert bendir hins vegar til þess að stjórnvöld hafi farið á svig við lög við ákvarðanir um símhleranir hér á landi," sagði Björn.
Björn rakti niðurstöður nefndar sem skipuð var til að fjalla um símahleranir í kalda stríðinu. Þar kemur fram að segulbönd voru ekki notuð við hleranir á síma. Lögreglumenn skrifuðu niður hjá sér það sem þeir hlustuðu á og í lok dags var metið hvað skipti máli og það sem ekki skipti máli var eytt. Ekki var hlustað á nóttunni vegna manneklu lögreglunnar. Björn sagði að þessi lýsing benti ekki til þess að um öflugt eða víðtækt eftirlit hafi verið að ræða. Fráleitt væri að líkja þeim við hleranir í Noregi, en viðurkennt væri að þar hefðu verið stundaðar pólitískar hleranir. Hér hefðu símar verið hleraðir eftir að dómari hefði heimilað þær.
„Raunar má ætla að lögreglan hafi litið á heimildir sínar sem nauðsynlega varúðarráðstöfun ef spenna magnaðist á hinum pólitíska átakavettvangi."
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, spurði Björn á fundinum hvort hann teldi að næg tilefni hefðu verið til að hlera síma Ragnars Arnalds alþingismanns og formanns Alþýðubandalagsins árið 1968. Björn svaraði spurningunni ekki beint, en benti á að ekki lægi fyrir nein staðfesting á því að lögregla hefði nýtt sér heimild sína til að hlera síma Ragnars.