Flundra í Kópavogslæk

Mynd af flundrunni á vef Náttúrustofu Kópavogs.
Mynd af flundrunni á vef Náttúrustofu Kópavogs.

Náttúrufræðistofu Kópavogs barst á dögunum flundra sem veiddist fyrir ofan tjörnina í Kópavogslæk. Segir stofnunin ljóst, að fiskurinn hafi klakist úr hrygningu hér við land. Það voru þrjár stúlkur sem veiddu flundruna en þær höfðu  veitt þrjár flundrur á sama stað nokkrum dögum fyrr en sleppt þeim aftur.

Flundra er einskonar nýbúi við Ísland, en hennar varð fyrst vart hér á landi í september 1999. Flundran sem veiddist í Kópavogslæk var 5–6 sm löng og er því á fyrsta aldursári.

Heimkynni flundru eru í norðaustanverðu Atlantshafi og hingað hefur hún líklega borist frá Færeyjum. Hún er botnlæg eins og aðrir flatfiskar og í sjó finnst hún frá fjöruborði niður á um 100 metra dýpi. Hún sækir bæði í salt og ferskt vatn og lifir í árósum ásamt því að ganga upp í ár og læki en slíkt er óvenjulegt á meðal sjávarfiska.

Vísbendingar eru um að flundra fjölgi sér mikið núna og breiðist hratt út við landið. Margir hafa af þessu áhyggjur, meðal annars stangveiðimenn vegna hugsanlegrar samkeppni við laxfiska um búsvæði og fæðu. 

Vefur Náttúrustofu Kópavogs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert