Útlendingastofnun greiðir Félagsþjónustu Reykjanesbæjar sex þúsund og fimmhundruð krónur á sólarhring fyrir hælisleitendur. Auk fæðis og húsnæðis fá þeir þrjúþúsund krónur í vasapeninga á viku. Flestir hælisleitendur búa á Gistiheimilinu Fit í Njarðvík.
Félagsþjónustan segir 6500 nægja til að sjá hælisleitendum fyrir fæði og húsnæði auk heilbrigðis og samfélagsþjónustu.
Dæmi eru um hælisleitendur sem hafa beðið við þessar aðstæður í allt að þrjú ár meðan málið er til meðferðar í kerfinu. Sú breyting varð á þessu ári að konur og börn dvelja ekki lengur á Fit heldur fá inni í íbúðum en einhleypir karlar dvelja á Fit. Heimilismenn þar voru ekki ánægðir með aðstöðu og umgengni þegar MBL sjónvarp for þangað í gær.
Hjördís Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsþjónustunnar segist ekki verða mikið vör við slíka gagnrýni en heimilismenn beri ábyrgð á umgengni að mestu leyti sjálfir. Hún segir að mennirnir fái strætókort og sundkort frá bænum og reynt sé að gera dvöl þeirra bærilega. Það væri þó æskilegt að einhverjir þeirra hefðu tímabundin atvinnuleyfi meðan þeir væru að bíða.
Nour Al-Denbhjt frá Írak var tekinn með fölsuð persónuskilríki á leið til Kanada og afplánaði mánaðarfangelsisdóm. Hann óskaði síðan eftir pólitísku hæli í landinu og hefur búið á gistiheimilinu Fit í þrjá daga. Nour sem er nítján ára sagðist vera tvístígandi eftir að hafa séð aðbúnaðinn á heimilinu í Njarðvík og honum finnst andrúmsloftið fjandsamlegt. Hann langar mest að snúa aftur til Noregs.