Heimilt að skjóta sel en ekki án samþykkis lögreglu

Þessi selur tengist ekki fréttinni enda hélt hann sig fjarri …
Þessi selur tengist ekki fréttinni enda hélt hann sig fjarri mannabyggð. mbl.is/RAX

Meðlimur í Veiðifélagi Fjarðarár skaut í gærdag sel í ánni og var atvikið tilkynnt til lögreglu. „Þó að það sé heimilt að skjóta sel í silungs- og laxveiðiám samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði frá 2006 þarf samþykki lögreglu þegar aðgerðin fer fram í þéttbýli," sagði Ólafur Sigurðsson bæjarstjóri á Seyðisfirði.

Ólafur segir að það hafi ekki tíðkast að skjóta sel á þessum stað einfaldlega vegna þess að selurinn hefur ekki gengið upp í ánna á þeim tíma sem enn er silungur í ánni.

Vopnaburður bannaður í þéttbýli

„Allur vopnaburður innan þéttbýlisins er auðvitað bannaður, það er skýrt í lögreglusamþykkt. Menn þurfa að fá leyfi lögreglu og fylgd lögreglu í aðgerðina," sagði Ólafur að lokum.

Lárus Bjarnason Sýslumaður tók undir orð Ólafs og ítrekaði að málið væri í rannsókn. „Ég á eftir að skoða málið betur, til dæmis hvar þetta gerðist og hvað vitni heyrðu eða sáu og hvort einhver hætta hafi verið á ferðum. Þannig að það er ýmislegt sem þarf að rannsaka í þessu," sagði Lárus.

Málinu ekki lokið

Lárus sagði að þetta væri alvarlegt mál og að það þyrfti að sjá til þess að þetta gerðist ekki aftur. Lárus sagði jafnframt að skotmennirnir hafi hugsanlega vitað af heimildinni til að skjóta sel í veiðiám en bætti því við að maður sem hefur skotvopnaleyfi eigi jafnframt að þekkja vopnalögin.

Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Egilsstöðum.

Ekki gert af illum vilja

Magnús Jónasson er í stjórn Veiðifélags Fjarðará og segist hann vera sammála þeirri gagnrýni sem fram hafi komið og tekur undir að þó að menn séu í fullum rétti til að skjóta selinn þá hefði átt að láta vita af því.

„Þetta var ekki gert af illum vilja, mennirnir voru að vinna verk sem þeir voru beðnir um og vissu ekki betur en að það væri allt í lagi," sagði Magnús.

Þessa mynd tók Magnús Jónsson stjórnarmaður Veiðifélagsins af sel í …
Þessa mynd tók Magnús Jónsson stjórnarmaður Veiðifélagsins af sel í Fjarðará út um gluggann á húsi sínu sl. vetur. mbl.is/Magnús Jónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert