Hátt í hundrað manns að störfum

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Um 70 björgunarsveitarmenn frá höfuðborgarsvæðinu voru við vinnu meðan óveðrið gekk yfir í nótt og sinntu þeir á fimmta tug aðstoðarbeiðna, samkvæmt upplýsingum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. 

Allt innanlandsflug liggur niðri samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands.

Mest um fok á lausum munum, þakplötum og vinnupöllum og dreifðust útköllin nokkuð jafnt um svæðið.  Á Suðurnesjum fauk líka ýmislegt lauslegt í nótt og voru um 15 manns frá björgunarsveitum í að sinna þeim verkefnum sem þar bárust. M.a. var fjarlægður gámur af Hafnargötunni og bíll fauk út í skurð.

Einnig sinntu björgunarsveitir verkefnum í Borgarnesi, á Eyrarbakka, og á Hellissandi. 

Fram kemur í tilkynningu Landsbjargar að einn maður hafi mætt með vandamál sitt í Gróubúð, húsnæði björgunarsveitarinnar Ársæls á Granda. Flautan á bíl hans hafi farið í gang um klukkan eitt í nótt og hann ekki getað stöðvað hana. Ekki var mikil ánægja með þetta hjá nágrönnum mannsins og greip hann því á það ráð að aka bílnum þangað sem hjálp var að fá en björgunarsveitarmenn kipptu öryggi úr bílnum sem stöðvaði hávaðann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka