Miklar vegaskemmdir urðu á Vestfjörðum í óveðrinu, sem gekk þar yfir í nótt. Stór skriða féll á veginn, sem liggur inn í Örlygshöfn á Patreksfirði og er hann ófær. Þá rann úr veginum í botni Patreksfjarðar og komast flutningabílar þar ekki um.
Að sögn Eiðs Thoroddsen, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum, er verið að flytja vinnuvélar til Patreksfjarðar en í morgun hafa vegagerðarmenn verið að gera við skemmdir á veginum í Arnarfirði og brú á Fossfirði. Vegirnir um Þorskafjarðarheiði og Dynjandisheiði eru einnig lokaðir.
Eiður sagði ljóst, að það taki einhverja daga að koma veginum í botni Patreksfjarðar í samt lag. Litlir bílar komast um veginn en ekki flutningabílar en Eiður sagði að vonir stæðu til þess að flutningabílar kæmust í kvöld í ferjuna Baldur.
Skriðan sem féll á Örlygshafnarveg er afar stór og sagði Eiður ljóst að langan tíma taki að hreinsa veginn. Vonast væri til að hægt yrði að búa til jeppaslóð yfir skriðuna síðdegis.