Nýr forstjóri Keflavíkurflugvallar

Björn Óli Hauksson.
Björn Óli Hauksson.

Björn Óli Hauksson rekstrarverkfræðingur hefur verið ráðinn forstjóri Keflavíkurflugvallar ohf., nýs opinbers hlutafélags sem tekur formlega við rekstri Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. 1. janúar 2009.

Umsækjendur um stöðuna voru 55 talsins. Hagvangur sá um að auglýsa eftir umsóknum og meta þær á faglegum forsendum. Niðurstaðan var sú að Björn Óli væri hæfastur umsækjenda. Stjórn Keflavíkurflugvallar samþykkti í dag að ráða Björn Óla og hann hefur störf 1. október næstkomandi.

Björn Óli Hauksson hefur undanfarin sex ár unnið að uppbyggingu flugmála í Kosovo sem forstjóri Pristina International Airport J.S.C og sem verkefnisstjóri þar á vegum Flugmálastjórnar Íslands og Flugstoða ohf. Hann setti þar m.a. á laggir  flugmálastjórn Sameinuðu þjóðanna.

Björn Óli er 47 ára að aldri og er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku. Hann hefur starfað í Kosovo frá því árið 2000, fyrst sem tæknisérfræðingur við uppbyggingu mannvirkja og tæknibúnaðar en síðar sem sérfræðingur og umsjónarmaður fjölda verkefna í stjórnsýslunni og rekstri hins opinbera þar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka