Geir H. Haarde forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnu Alþjóðaorkumálaráðsins í Lundúnum í gær. Þar fjallaði hann um árangur Íslands í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Einnig um hlutverk stjórnvalda í að ryðja nýrri framtíð í orkumálum braut.
Geir sagði m.a. að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hann veitti forystu, hefði staðið fyrir mikilli einkavæðingu fyrirtækja í opinberri eigu undanfarin 17 ár, að undanskildum orkufyrirtækjum. Hann sagði að það myndi stríða gegn sannfæringu sinni og stefnuskrá flokksins að halda því fram að yfirráð ríkisins í orkugeiranum væru í meginatriðum æskilegri en einkaframtakið. Engu að síður þyrfti hvert land eða landsvæði að finna heppilegt fyrirkomulag. Hann sagði að lengi hefði ríkt samstaða meðal íslensku þjóðarinnar um opinbert eignarhald á þessu sviði og að til skamms tíma hefði ekki verið neinn annar fjárhagslegur valkostur.