Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson mbl.is/Dagur

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir Kristin H. Gunnarsson, þingmann Frjálslynda flokksins, velkominn í þingflokk Samfylkingarinnar. „Hann á ekki að láta öfgamennina í Frjálslynda flokknum niðurlægja sig með því að hrekjast úr embætti þingflokksformanns," skrifar Össur á vef sinn í dag.

Segir Össur að þingmenn Frjálslynda flokksins hafi sett efst á forgangsröð sína að tæta sinn eigin flokk sundur með innbyrðis illdeilum.

„Kristinn H. Gunnarsson, Sleggjan, hefur unnið sér það til óhelgis að vera andsnúinn öfgakenndri stefnu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í innflytjendamálum, en miskunn og innri maður Magnúsar birtist þjóðinni best í afstöðu hans til palestínskru flóttakvennanna sem Skagamenn skutu í skjól hjá sér.

Í því máli sýndi Sleggjan siðferðisþrek, sem ber að virða. Hann heldur því enda fram að sín stefna sé í fullu samræmi við stefnu Frjálslynda flokksins, sem Kristinn telur ekki ala á útlendingaandúð. Um það mætti raunar setja á aðrar tölur síðar.

Í leiðinni hefur slest upp á vináttu þeirra Jóns Magnússonar, alþingismanns og lögmanns, sem er í slagtogi með Magnúsi Þór. Jón fer þó betur með öfgar sínar.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður, reynir að fara bil beggja, en má þola það, að innan flokksins er komin af stað maskína að undirlagi Magnúsar Þórs, Jóns Magnússonar og Sigurjóns sundkappa Þórðarsonar sem vinnur að því að bryðja í mél formennsku Guðjóns Arnars.

Sleggjan hefur unnið það sér til óhelgis einnig að hafa stutt formanninn. Nú eru þessar krytur að snúast upp í opið stríð. Miðstjórn Frjálslynda flokksins, sem kemur þingflokkurinn ekkert við, hefur sett fram skipun um það að Kiddi Sleggja verði fjarlægður með handafli úr stöðu formanns þingflokks, og Jóni Magnússyni fært það á silfurfati. Þetta er í senn atlaga að Guðjóni Arnari, og tilraun til að gera Frjálslynda flokkinn að einsmálsflokki þar sem andóf gegn innflytjendum verður sett á oddinn að norskri fyrirmynd.

Tækifærissinnar í Frjálslynda flokknum ætla að gjörbreyta Frjálslynda flokknum og gera hann að parti af þeirri ógeðfelldu hreyfingu erlendra flokka, sem nota innflytjendur til að ala á andúð á útlendu fólki. Hluti af þessu plani er auðvitað bókin, sem Magnús Þór sagðist í sjónvarpinu fyrir skömmu vera að skrifa um innflytjendamál, og er greinilega svo samansúrruð að hann lagði lykkju á leið sína til að staðhæfa að bókin kæmi Frjálslynda flokknum ekkert við. En hann er óvart varaformaður hans, og sérstakur þinglóðs formannsins.

Langbesti leikur Kristins H. Gunnarssonar í þessari stöðu er að skera á festar, og sækja um inngöngu í þingflokk Samfylkingarinnar. Hann á ekki að láta öfgamennina í Frjálslynda flokknum niðurlægja sig með því að hrekjast úr embætti þingflokksformanns. Kristinn er ekkert annað en jafnaðarmaður, með svipaða slagsíðu og sumir landsbyggðarþingmenn okkar, að ógleymdum byggðaráðherranum. Ég býð hann að minnsta kosti velkominn fyrir mína parta," skrifar Össur á vef sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert