Þeim sem hringdu í Símaver Reykjavíkurborgar í morgun var brugðið þegar borgarstjórinn sjálfur svaraði í símann. Sérstaklega átti ein kona erfitt með að kyngja því að aðgengi að æðstu stjórnendum í borginni væri orðið svona gott. Hanna Birna Kristjánsdóttir var í starfskynningu í símavörslu og kynntist þar öllu nema laununum. Hún útilokar ekki að dúkka upp á næstunni í ýmsum þjónustustörfum í borginni.
Þrettán manns starfa í Símaveri og taka við allt að tuttugu þúsund símtölum í hverjum mánuði. Hanna Birna Kristjánsdóttir var ánægð með frammistöðu sína. Kristín Pálsdóttir teymisstjóri sem kenndi henni réttu handtökin var heldur ekki frá því að Hanna Birna hefði hæfileika á þessu sviði. Reyndar taldi hún að Hanna Birna gæti fengið starf ef allt um þryti í pólitíkinni.