„Mér fannst gaman að starfinu og í þá áratugi sem ég var með eigin rekstur féll aldrei dagur úr. Ég tók að mér ýmis erfið verkefni. Verkefnið sem ég glími við í dag er þó langerfiðast. Maður tekur eitt skref í einu og er æðrulaus. Öðruvísi gengur þetta ekki,“ segir Tryggvi Ingólfsson, 58 ára Rangæingur sem hálsbrotnaði og lamaðist fyrir neðan háls í hestaslysi fyrir tveimur árum.
Hann var í útreiðartúr með fjölskyldunni í Fljótshlíð þegar hestur hans hnaut.
„Ég man atburðarásina nokkuð skýrt og hvernig þetta vildi til. Ég féll af baki og heyrði þegar hálsliðurinn brotnaði. Eftir það er hins vegar allt svart,“ segir Tryggvi.
Hann er lamaður upp að hálsi og þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.
„Því miður finn ég hvergi til í líkamanum. Líð hvergi kvalir. Ég vildi hins vegar gjarnan að því væri öfugt farið. Minnsti sársauki væri merki um bata og að líf væri að færast í lamaðan líkamann.“
Enn hefur ekki fundist lækning við mænuskaða og afleiðingar hans geta meðal annars verið óafturkræfar skemmdir á innri líffærum.
Auður segist vitanlega ánægð með hversu langt málefni mænuskaðaðra hefur miðað fyrir tilstilli baráttu hennar.
Um söfnunarféð segir hún: „Ég þarf 80 milljónir í þá rannsókn sem ég vil styrkja. Þá get ég sent 8 sjúklinga í tilraunameðferð. Fái ég það ekki verð ég að semja um færri sjúklinga. En ég þigg það sem að mér er rétt, það munar um allt.“
Spurð um verkefnið segir hún: „Rannsóknin snýst um að taka fólk fljótlega eftir skaða, skera inn á það og búa þannig í haginn fyrir mænuna að henni er gefið tækifæri til að lækna sig sjálf.“