Eggert Haukdal kvaðst ánægður og þakklátur fyrir sýknudóminn í dag eftir tíu ára þrautagöngu. Aldrei hefði verið hægt að sanna á sig einn einasta þjófnað þrátt fyrir að kerfið hefði barist við að halda málinu áfram.
„Það var búið koma því þannig fyrir með lygum og ómerkilegheitum að ég væri lygari og þjófur,“ sagði hann í samtali við mbl.is rétt í þessu.
„Dómskerfið á Íslandi er búið að hafa mig þjóf í tíu ár,“ sagði Eggert og játaði því að hann ætlaði með málið lengra. „Að sjálfsögðu er ýmislegt framundan, meðal annars það að krefjast skaðabóta. Það fer í fullan gang.“
„Þetta er mikill léttir fyrir Eggert Haukdal,“ sagði Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Eggerts eftir að sýknudómurinn var kveðinn upp í dag. „Eftir næstum því áratugar baráttu, þar af átta ár fyrir dómstólum. Það tókst loks að fá endurupptöku í fyrra og svo dóm núna um að hann sé saklaus,“ sagði Ragnar.
Hann taldi stórmerkilegt að endurupptöku hefði verið hafnað í tvígang að minnsta kosti, en loks í þriðju tilraun hefði tekist að fá málið tekið upp aftur. Þá hefði komið í ljós að aldrei hefðu legið fyrir sönnungargögn um sekt Eggerts.
„Það var aldrei sannað að hann væri sekur um það sem hann var ákærður fyrir,“ sagði Ragnar og bætti við að dagurinn í dag væri þannig mjög góður fyrir Eggert.
„Hins vegar má segja að bestu ár ævi hans hafi farið í þetta og að því leyti er þetta hörmulegt,“ sagði Ragnar.