Hæstiréttur hefur fallist á kröfu konu, sem starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, um að ógilda beri þá ákvörðun stjórnenda spítalans að flytja konuna til í starfi eftir að karlmaður, sem var samstarfsmaður konunnar, sakaði hana um kynferðislega áreitni. Var Landspítalinn jafnframt dæmdur til að greiða konunni 800 þúsund krónur í miskabætur.
Landspítalinn gaf þær ástæður fyrir flutningi konunnar milli deilda, að með honum væri hindrað að ágreiningur milli tveggja hjúkrunarfræðinga á deildinni truflaði starfsemina.
Hæstiréttur segir, að yfirmönnum konunnar hefði verið unnt að ná tilsettu markmiði í sátt við báða starfsmennina sem í hlut áttu, en fyrir lá að karlmaðurinn var tilbúinn að færa sig milli deilda. Þess í stað hefði konan verið flutt til gegn vilja hennar.
Segir dómurinn að málefnalegar eða faglegar ástæður hefðu ekki réttlætt brottflutning konunnar eins og
málum var háttað. Þá var talið, með vísan til þess að ákvörðunin hefði
vegið að æru konunnar og mikilsverð réttindi þar með verið í húfi, að umrædd
ákvörðun hefði verið stjórnvaldsákvörðun. Hefði Landspítalinn því brotið gegn stjórnsýslulögum en konunni hafði ekki verið gefinn fullnægjandi eða
raunhæfur kostur á að gæta lögbundins andmælaréttar síns áður en ákvörðunin var
tekin.