Fæst tjónin bætt

Þetta tré við Hrafnagilsstræti rifnaði upp með rótum og lagðist …
Þetta tré við Hrafnagilsstræti rifnaði upp með rótum og lagðist upp að húsinu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tryggingafélögin höfðu í nógu að snúast í gær við að svara fyrirspurnum og skoða tjón hjá viðskiptavinum sínum. Afar hvasst var seint í fyrrakvöld og aðfaranótt miðvikudagsins og fylgdi óveðrinu mikil úrkoma. Hjá VÍS og Sjóvá fengust þær upplýsingar að tilkynningarnar vörðuðu allt frá brotnum rúðum og skemmdum á bílum til vatnstjóns á innbúi. Fæst síðastnefndu tjónanna fást hins vegar bætt, eða innan við 5% að mati Sjóvár.

Vatnstjón algengust

Þá höfðu nokkrir tugir tilkynninga borist Sjóvá en enn fleiri fyrirspurnir verið lagðar fram. Tilkynnt var um fá foktjón en engar skemmdir á húsum. Flest vörðuðu tjónin vatnsflóð þar sem niðurföll eða þakrennur voru stíflaðar en þau tjón þurfa húseigendur að bera sjálfir. Hjá Sjóvá fengust þær upplýsingar að innan við 5% þeirra húseigenda sem urðu fyrir vatnstjóni mættu eiga von á bótum þar sem í um 95% tilvika mætti rekja tjónið til vanhirðu.

Síðla í gær höfðu yfir 100 símtöl borist VÍS. Yfirleitt var um fyrirspurnir að ræða en tilkynnt var um nálægt 40 tjón á höfuðborgarsvæðinu. Engar tilkynningar bárust um skaða á skipum eða öðru tengdu sjónum eða höfnum en talsvert var um tilkynningar vegna vatnsleka gegnum veggi og þök sem enginn bótaréttur er fyrir.

Þak og gluggar haldi vatni

Í tryggingarskilmálum VÍS og Sjóvá segir að félögin bæti tjón vegna vatns sem skyndilega og óvænt streymi úr leiðslum húsa og eigi upptök innan veggja þeirra. Félögin bæti hins vegar ekki tjón vegna úrkomu nema hún sé svo mikil að frárennslisleiðir hafi ekki undan og vatn flæði inn í húsnæði hins vátryggða eða það þrýstist upp um frárennslisleiðslur.

Tjón vegna vatns frá þökum, þakrennum eða svölum er aldrei bætt. Þau svör fengust að reiknað væri með því að þak, veggir og gluggar héldu vatni og vindum.

Í ofsaveðri líkt og því sem skall á í fyrrakvöld eru íbúðir á jarðhæð og í kjallara í mestri hættu á vatnstjóni. Leki inn í þær íbúðir þarf að meta hvort tjónið stafi af því að holræsi hafi ekki haft undan vatnsflaumnum eða illa hafi verið hirt um að hreinsa niðurföll.

Í fyrrnefnda tilfellinu eiga húsráðendur rétt á bótum en ekki í því síðarnefnda. Sé sjálft húsið óþétt, drenlagnir lélegar eða stíflaðar sem og þak-, svala- og kjallaraniðurföll, situr fólk sjálft uppi með tjónið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert