Tryggingafélögin höfðu í nógu að snúast í gær við að svara fyrirspurnum og skoða tjón hjá viðskiptavinum sínum. Afar hvasst var seint í fyrrakvöld og aðfaranótt miðvikudagsins og fylgdi óveðrinu mikil úrkoma. Hjá VÍS og Sjóvá fengust þær upplýsingar að tilkynningarnar vörðuðu allt frá brotnum rúðum og skemmdum á bílum til vatnstjóns á innbúi. Fæst síðastnefndu tjónanna fást hins vegar bætt, eða innan við 5% að mati Sjóvár.
Síðla í gær höfðu yfir 100 símtöl borist VÍS. Yfirleitt var um fyrirspurnir að ræða en tilkynnt var um nálægt 40 tjón á höfuðborgarsvæðinu. Engar tilkynningar bárust um skaða á skipum eða öðru tengdu sjónum eða höfnum en talsvert var um tilkynningar vegna vatnsleka gegnum veggi og þök sem enginn bótaréttur er fyrir.
Tjón vegna vatns frá þökum, þakrennum eða svölum er aldrei bætt. Þau svör fengust að reiknað væri með því að þak, veggir og gluggar héldu vatni og vindum.
Í ofsaveðri líkt og því sem skall á í fyrrakvöld eru íbúðir á jarðhæð og í kjallara í mestri hættu á vatnstjóni. Leki inn í þær íbúðir þarf að meta hvort tjónið stafi af því að holræsi hafi ekki haft undan vatnsflaumnum eða illa hafi verið hirt um að hreinsa niðurföll.Í fyrrnefnda tilfellinu eiga húsráðendur rétt á bótum en ekki í því síðarnefnda. Sé sjálft húsið óþétt, drenlagnir lélegar eða stíflaðar sem og þak-, svala- og kjallaraniðurföll, situr fólk sjálft uppi með tjónið.