„Enginn vill bera neina ábyrgð, engin skýring fæst og ekki neitt. Mér finnst ótrúlegt hvernig komið er fram við mann í þessu kerfi,“ segir móðir í Hafnarfirði sem komst nýlega að því að lögheimili ólögráða sonar hennar hafði verið fært til Noregs að henni forspurðri.
Barnsfaðirinn er íslenskur en búsettur í Noregi og gerðu foreldrarnir samkomulag um að pilturinn, sem er 16 ára gamall, myndi dveljast hjá föður sínum í nokkra mánuði í sumar. „Hann hefur greinilega eitthvað misskilið mig því hálfum mánuði síðar segir hann mér að hann sé búinn að skrá barnið í skóla í Noregi í haust. Svo fæ ég pappíra frá sýslumanninum í Hafnarfirði um að meðlagsgreiðslur til mín séu felldar niður þar sem sonur minn sé fluttur til Noregs.“
Að sögn konunnar var hennar samþykkis aldrei leitað þegar heimilisfang sonarins var fært úr landi, þrátt fyrir að hún hafi alla tíð farið með fullt forræði en faðirinn haft umgengnisrétt um jól og sumar. Hún segist furðu lostin yfir að breytingin hafi komist í gegn án hennar vitneskju.
„Svo þegar ég fer að kanna málið bæði hjá Tryggingastofnun og Þjóðskrá benda menn bara hver á annan og gefa engin svör. Ég vil bara fá að vita hvort það sé hreinlega svona auðvelt að ræna börnunum og fara bara með þau úr landi?“
Hjá upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar fengust þær upplýsingar að reglur í Noregi virtust vera lausari í reipunum en hérlendis. „Almenna reglan á Íslandi er sú að ef um barn yngra en 18 ára er að ræða þá þarf samþykki frá báðum foreldrum eða þá staðfestingu frá sýslumanni eða öðrum á því að viðkomandi foreldri sé með fullt forræði. Þetta er því eitthvað sem er gert í óþökk við kerfið hér,“ segir Alma Sigurðardóttir verkefnisstjóri.