Glymur klukkan Kristni eða Guðjóni?

Guðjón Arnar Kristjánsson
Guðjón Arnar Kristjánsson Ásdís Ásgeirsdóttir

Bregðist Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins (FF), ekki við ályktun meirihluta miðstjórnar FF um skipti á þingflokksformanni með jákvæðum hætti kann það að koma í bakið á honum sem formanni.

Þetta kemur skýrt fram í ályktun sem Valdimar Jóhannesson hefur sent frá sér. Valdimar situr í miðstjórn FF. Miðstjórnin samþykkti á fundi sínum sl. mánudag áskorun þar sem skorað var á þingflokkinn að skipta Kristni H. Gunnarssyni út sem þingflokksformanni fyrir Jón Magnússon.

Í ályktun Valdimars segir: „Vantraust á Kristin kom einnig fram á miðstjórnarfundi í maí sl. þegar varaformaður flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, lýsti því yfir að hann gæti ekki lengur stutt Kristin eftir að hann kom í bakið á formanni flokksins, Guðjóni Arnari Kristjánssyni, í innflytjendaumræðunni. Kristinn hefur sagt opinberlega að samþykkt miðstjórnar jafngildi vantrausti á formann flokksins. Það mat Kristins er því aðeins rétt að Guðjón bregðist ekki eðlilega við ályktun miðstjórnar. Þá er því miður ljóst hverjum klukkan glymur.“

Valdimar bendir í ályktun sinni á að forsenda kosningarinnar í miðstjórninni um þetta mál hafi verið sú að valddreifing í flokknum kallaði á þetta. Þannig hafi á fundinum verið bent  á óeðlilegt vægi Vestfjarða í embættum flokksins. Fulltrúar Reykjavíkur væri tveir á móti fjórtán Vestfjarða. Því væru í raun þröng hreppasjónarmið sem réðu í flokknum, eins og Valdimar orðar það.

Segir Valdimar ekki hægt að mótmæla þessu sjónarmiðum með neinum gildum rökum. „Hins vegar er ekki því að leyna að megn óánægja kom fram á miðstjórnarfundinum með framgöngu og störf  Kristins. Hann hefur ekkert lært af fyrri óförum í öðrum flokkum og er sem fyrr alls ófær um að vera í samstarfi við alla þá menn sem hann fær ekki kúgað undir gjörræði sitt,“ segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert