„Í fljótu bragði lít ég svo á að vegið sé að formanni flokksins með þessari samþykkt,“ segir Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis og formaður þingflokks Frjálslynda flokksins, um áskorun miðstjórnar þess efnis að Jón Magnússon verði formaður þingflokksins.
Á mánudag samþykkti miðstjórnarfundur Frjálslynda flokksins umrædda áskorun, sem Eiríkur Stefánsson lagði fram. Í greinargerð með ályktuninni kemur fram að lög flokksins kveði skýrt á um að flokkurinn eigi að leggja áherslu á aukið lýðræði og valddreifingu í samfélaginu. Í því ljósi sé óviðunandi að þingmaður FF í Reykjavík skuli ekki hafa verið gerður að formanni þingflokksins eftir síðustu alþingiskosningar og flokkurinn þannig stuðlað að auknu lýðræði og valddreifingu innan þeirra kjördæma landsins þar sem FF fékk kjörna alþingismenn árið 2007.
Kristinn H. Gunnarsson bendir á að þetta sé í annað sinn sem vegið sé að Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni flokksins, úr flokknum á rúmri viku. „Hann lagðist gegn ályktuninni og þeir keyra yfir hann engu að síður.“
Í þingflokki Frjálslyndra eru fjórir menn; Guðjón, Kristinn, Jón og Grétar Mar Jónsson. Kristinn var ekki á miðstjórnarfundinum en áréttar að verkaskipting í þingflokknum sé málefni þingflokksins en ekki miðstjórnar og málið verði ráðið til lykta á þeim vettvangi en ekki annars staðar.
Kristinn segir um skrif Össurar að hann líti svo á að hann skrifi af góðum hug og sér þyki vænt um það. „En ég ætla bara að halda mínu striki, kynna mér málin og sjá hverju fram vindur. Ég á svo sem ekki von á neinu öðru en að þetta verði í svipuðu horfi og verið hefur. Formaður flokksins mun hafa lagst gegn þessari ályktun og ég veit ekki um nein áform um breytingar á stjórn þingflokksins.“
Spurður hvort hann sé á leið úr flokknum segir Kristinn stutt og laggott: „Nei.“