Matarkarfan hækkar um 5-7%

Sverrir Vilhelmsson

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað um 5%-7% í flestum matvöruverslunum frá því um miðjan júní. Minnst er hækkunin á verði körfunnar tæp 1% í Krónunni og tæp 2% í Hagkaupum á tímabilinu. Frá því verðlagseftirlit ASÍ birti síðast verð á vörukörfu sinni um miðjan júní  og þar til í liðinni viku  hefur verð körfunnar hækkað mest í Kaskó um 7,3% og í Samkaupum-Úrval um 6,9%.

Kaskó og Bónus hafa hækkað mest

Frá því um miðjan apríl, þegar verð körfunnar var fyrst mælt, hefur
vörukarfa ASÍ hækkað um 7%-16% í flestum matvöruverslunarkeðjum. Mest er hækkunin tæp 17% í Kaskó og rúm 13% í Bónus en minnst hefur verð körfunnar hækkað í Hagkaupum um ríflega 5% frá því í apríl.

Verð vörukörfunnar hækkaði um eða yfir 5% í öllum lágvöruverðsverslunum að Krónunni undanskilinni þar sem hækkunin nam 0,7% á milli mæling. 7,3% verðhækkun á körfunni í Kaskó er að mestu tilkomin vegna mikilla hækkana á brauði og kornvörum (15,5%), sykri og sætindum (17%), drykkjarvörum (11%) og hreinlætisvörum (25%) í vörukörfunni.

Í Bónus nam hækkun vörukörfunnar í heild sinni 5,2% og má rekja þá hækkun að stærstum hluta til mikilla hækkana á brauði og kornvörum (13%) í vörukörfunni, auk grænmetis og ávaxta (11%) og hreinlætisvara
(13,6%).

Í Nettó hækkaði verð vörukörfunnar um 5% sem skýrist að mestu af mikilli hækkun á brauði og kornvörum (15,6%), sykri og sætindum (16,6%) og hreinlætisvörum (22,8%) í innkaupakörfunni. Á móti þessum hækkunum vegur að kjötvörur í körfunni hjá Nettó lækka um tæp 6%. Þrátt fyrir að heildarverð vörukörfunnar í Krónunni hækki lítið þá hafa vöruflokkar eins og brauð og kornvörur, grænmeti og ávextir og hreinlætisvörur hækkað mikið frá því í júní.

Á móti vegur að kjötvörur, drykkjarvörur og flokkurinn ýmsar matvörur í vörukörfunni hjá Krónunni hafa lækkað á milli mælinga, að því er segir á vef ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert