Nettengd á Reykjanesbrautinni

Áætlunarbílar SBK sem ganga á milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins eru nettengdir. Farþegarnir sem margir eru nemendur hjá Keili eða í háskólunum í Reykjavík geta því verið í þráðlausu netsambandi með fartölvunum sínum á meðan farið er á milli.

Netsambandið í áætlunarbílunum sem merktir eru Reykjanes Express er sett upp að frumkvæði eigandans, SBK. „Við vorum að færa viðskipti okkar til Nova og þeir komu með þessa lausn,“ segir Ólafur Guðbergsson, framkvæmdastjóri SBK. Búnaðurinn sem til þarf er fyrirferðarlítill og er komið fyrir í hanskahólfi bílsins. Farþegar sem hafa með sér fartölvu geta tengst netinu endurgjaldslaust.

SBK fer átta ferðir á dag, virka daga milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins. Alltaf er komið við á háskólasvæðinu og farinn aukahringur um svæðið í þremur ferðum.

Keilir sem er með háskólakennslu á Vallarheiði og leigir þar út íbúðir fyrir háskólanema af höfuðborgarsvæðinu hefur samning við SBK um strætisvagnaferðirnar. Gjaldið er innifalið í leigu og skólagjöldum hjá Keili. Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis, tók því fagnandi þegar SBK kom með hugmynd um nettengingu í rútunum við endurnýjun samninga í haust. Segir hann gott að nemendurnir geti nýtt ferðatímann til að vinna.

Gott að nýta tímann

Nemendur sem fara á milli alla virka daga og oft um helgar líka verja drjúgum tíma í rútunni, að minnsta kosti tíu klukkutímum á viku eða sem svarar heilli vinnuviku í mánuði.

„Mér finnst frábært að geta nýtt tímann í rútunni,“ segir Sóley Lúðvíksdóttir sem er í frumkvöðlanámi hjá Keili en býr í Reykjavík. Hún segist alltaf taka tölvuna með sér og er ánægð með að geta nýtt tímann til að skoða póst frá kennurunum og skipuleggja daginn. Hún þurfi þá ekki að hefja vinnuna í skólanum á því. Ekki er gert ráð fyrir tölvum í innréttingum bílanna og segist Sóley vera með fartölvuna í kjöltunni. Hún sé ekki óvön því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka