„Við erum að vinna í því af krafti að ná fólkinu heim og vonandi tekst það fyrir kvöldið,“ segir Bjarni Jón Finnsson Yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni, en ófært hefur verið inn í Langadal í Þórsmörk síðustu tvo daga vegna vatnavaxta í Merkuránum, þ.e. Steinholtsá, Hvanná og Krossá.
Í Langadal hafa dvalið 30 nemendur úr 10. bekk Húsaskóla í Reykjavík. Til stóð að hópurinn færi heim í gær en fresta varð heimför vegna ófærðar.
Að sögn Bjarna hefur vatnið í Krossá minnkað til muna, en ljóst að bæði Krossá og Steinholtsá hafa runnið upp úr farvegi sínum í vatnavöxtunum að undanförnu og valdið töluverðum skemmdum á vegarstæðum.
Aðspurður segir hann að grafa frá Vegagerðinni munu síðar í dag laga vegstæðið og keyra á undan rútunum úr Þórsmörk til þess að ýta niður stöflum í ánni sem vatnið grefur jafnóðum til þess að gera rútunum það kleift að komast yfir.
Að mati Bjarna þarf síðan fljótlega eftir helgi að fara í umfangsmeiri viðgerðir. „Við þurfum að koma stórvirkum vinnutækjum á staðinn strax eftir helgi til þess að laga varnargarð sem farinn er í sundur á nokkrum stöðum.“