Arnaldur Indriðason, rithöfundur, ræðir um bækur sínar í viðtali í breska dagblaðinu The Times í dag. Þar segir að Arnaldur hafi einn síns lið komið glæpasagnaforminu á fót á Íslandi en jafnframt náð miklum vinsældum á alþjóðlegum vettvangi undanfarin ár. Hvatinn að viðtalinu er m.a. útgáfa bókarinnar Vetrarborgin í Bretlandi í haust, undir nafninu Arctic Chill.
Greinarhöfundur, skoski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Doug Johnstone, segir í greininni að sú innsýn sem bækurnar gefi í hugarfar Íslendinga hafi slegið réttan tón hjá lesendum um allan heim. Bækurnar séu mjög myndrænar og laðist því vel að kvikmyndaforminu, en jafnframt einkennist þær af tómleikakennd og köldum húmor sem sé einkennandi fyrir Ísland.
Sjálfur segir Arnaldur í viðtalinu að það sé spennandi að staðsetja glæpasögu á Íslandi vegna þeirra breytinga sem hafi átt sér stað í íslensku samfélagi undanfarna áratugi og líklega gefi þær einhverja innsýn í pólítík og menningu á Íslandi þótt það hafi ekki beint verið ætlunin.
Bækur Arnaldar hafa verið útgefnar í 36 löndum, og er Vetrarborgin sú fimmta sem er gefin út í enskri þýðingu.
Viðtalið má lesa í heild sinni á vefsíðu Times