Forseti Alþingis í Rússlandi

Forseti Alþingis með íslensku sendinefndinni í Rússlandi
Forseti Alþingis með íslensku sendinefndinni í Rússlandi

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, er nú í opinberri heimsókn í Rússlandi í boði forseta Dúmunar, neðri deildar rússneska þingsins. Hann átti í gær fund með Vladimir G. Titov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands þar sem viðskipti landanna voru rædd. Þá kom Sturla á framfæri athugasemdum við aukið yfirflug rússneskra flugvéla á íslensku flugumsjónarsvæði.

Með Sturlu í för eru Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans, Ásta R. Jóhannesdóttir 1. varaforseti Alþingis, Bjarni Benediktsson formaður utanríkismálanefndar, Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins og Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins. Auk þeirra eru með í för Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis og Jörundur Kristjánsson alþjóðaritari á skrifstofu forseta Alþingis.

Í dag hitti íslenska sendinefndin ýmsar nefndir Dúmunar og voru samskipti þinganna í deiglunni ásamt mögulegu samstarfi þjóðanna, s.s. á viðskiptasviðinu. Formaður orkunefndar Dúmunar, Yuri A. Lipatov, færði þau skilaboð frá orkumálaráðherra Rússlands að ríkisstjórn Rússlands hefði mikinn áhuga á samstarfi við Ísland í verkefnum tengdum endurnýjanlegum orkugjöfum, ekki síst jarðhita.
Í framhaldi af því héldu fulltrúar rússneska orkurisans, Rushydro, kynningu á verkefnum þeirra, m.a. á sviði jarðhita-, vatnsafls, -og sjávarfallavirkjana.

Á morgun halda forseti Alþingis og íslenska sendinefndin til St. Pétursborgar þar sem þau heimsækja m.a. íslensk fyrirtæki á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert