Guðjón Arnar: Miðstjórnin skiptir ekki verkum milli þingmanna

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það er eins í þingflokki Frjálslynda flokksins eins og í öðrum þingflokkum að það er þingflokkurinn sem skiptir með sér verkum. Miðstjórnin skiptir ekki verkum milli þingmanna í þinginu.“ Þetta segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, um áskorun miðstjórnar flokksins frá því á mánudag, þess efnis að Jón Magnússon verði formaður þingflokksins.

Kristinn H. Gunnarsson gegnir stöðu þingflokksformanns. Á mánudag samþykkti meirihluti miðstjórnar flokksins umrædda áskorun, sem Eiríkur Stefánsson lagði fram. Þar kemur fram að óviðunandi sé að þingmaður FF í Reykjavík skuli ekki hafa verið gerður að formanni þingflokksins eftir síðustu kosningar. Með því hefði verið stuðlað að valddreifingu meðal kjörinna þingmanna flokksins, en frjálslyndir fengu sjö menn kjörna árið 2007.

Spurður um hvort honum finnist samþykkt miðstjórnarinnar vera vantraust á sig, segir Guðjón að það sé ekki miðstjórnarinnar að vera með vantraust. „Formaður flokksins er kosinn á landsþingi,“ bendir hann á. Um tillöguna segist Guðjón hafa verið andsnúinn henni. „Ég var á móti því að þessi tillaga yrði flutt og samþykkt,“ segir hann.

Guðjón Arnar segir að það sé þingflokksins að skipta með sér verkum. Flokkurinn muni gera slíkt við upphaf haustþings. Hann vill ekki svara því hvort til greina komi að skipta um þingflokksformann. „Það er okkar mál í þingflokknum.“

Um störf Kristins H. Gunnarssonar segist Guðjón ekki telja að hann hafi  notið sannmælis. Hann hafi að mörgu leyti staðið sig vel sem þingflokksformaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert