Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag að ráða Hjörleif Kvaran sem forstjóra fyrirtækisins. Hjörleifur hefur verið settur forstjóri undanfarin misseri. Átján sóttu um starfið.
Gengið var frá samkomulagi um að Guðmundur Þóroddsson léti af starfi forstjóra Orkuveitunnar í maí. Guðmundur var forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur en fékk leyfi frá störfum á síðasta ári til að veita Reykjavik Energy Invest forstöðu. Hjörleifur Kvaran hefur síðan stýrt Orkuveitunni.
Hjörleifur er hæstaréttarlögmaður sem réðist árið 2003 til Orkuveitunnar sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs. Þá hafði hann gegnt starfi borgarlögmanns í áratug. Hjörleifur varð aðstoðarforstjóri Orkuveitunnar snemma árs 2007 og settur forstjóri fyrirtækisins frá 1. september 2007.
Ráðgjafarfyrirtækið Intellecta hafði umsjón með ráðningarferlinu.