Ungir frjálslyndir lýsa yfir vantrausti á Kristin H. Gunnarsson, þingmann Frjálslynda flokksins, og hvetja hann til að segja af sér þingmennsku tafarlaust.
Stjórn Ungra frjálslyndra hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu þess efnis:
„Í ljósi þess að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, hefur ítrekað sýnt vanhæfi sitt til að gegna þingstörfum í þágu Frjálslynda flokksins, flokksins sem kom honum á þing, hefur stjórn ungra frjálslyndra ákveðið að lýsa yfir algeru vantrausti á störf hans í þágu flokksins.
Hefur Kristinn ítrekað unnið gegn flokknum og reynt að afvegaleiða mikilvæg málefni sem varða þjóðarhagsmuni jafnt sem framtíð Íslendinga.
Hvað eftir annað hefur Kristinn valið þann kost að koma í bakið á samflokksmönnum sínum og bar þar hæst tilraun hans til uppreisnar gegn varaformanni flokksins í maí síðastliðnum.
Nú hefur Kristinn enn og aftur farið mikinn í fjölmiðlum með svívirðilegum yfirlýsingum um störf miðstjórnar og hæfni hennar til þess að gegna því embætti sem lög flokksins kveða á um.
Stjórn ungra frjálslyndra lýsir hér með yfir algeru vantrausti á Kristinn H. Gunnarsson sem þingmann Frjálslynda flokksins og hvetur hann til að segja af sér þingmennsku samstundis.
- Viðar Guðjohnsen, formaður
- Ólafur Egill Jónsson, varaformaður
- Ellert Smári Kristbergsson, gjaldkeri
- Einar Einarsson, ritari
- Björn Júlíus Grímsson, stjórnarmaður
- Jóhann Kristjánsson, stjórnarmaður