Árið 2008 er orðið metár í birtingum í ritrýndum erlendum fræðiritum hjá Háskólanum á Akureyri. Þann 15. september síðastliðinn var alls búið að birta 20 ISI greinar, en til samanburðar voru aðeins birtar 9 greinar allt árið í fyrra.
Í desember 2007 gerði HA samning við menntamálaráðuneytið um kennslu og rannsóknir og var þá meðal annars stefnt að því að fjölga birtingum í erlendum ritrýndum fræðiritum. Gert var ráð fyrir að birtingar í ISI tímaritum yrðu 12 árið 2008 og 25 árið 2010 eða alls 54 á tímabilinu. Markmið ársins í ár hefur því þegar verið uppfyllt og rúmlega það.
Auk þeirra 15 greina sem þegar hafa birst eru fleiri sem bíða birtingar á árinu. Í fréttatilkynningu frá HA segir að þessi árangur sé til marks um mikinn uppgang í rannsóknum við skólann.