Nýir rafbílar prófaðir á Íslandi

Iðnaðarráðherra skrifar í dag undir viljayfirlýsingar um prófanir á i-MiEV rafbílnum við Mitsubishi Motors Corporation og um þróun þjónustunets við Mitsubishi Heavy Industries og Mitsubishi Corporation, að því er fram kemur í tilkynningu.

 „Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra skrifar í dag undir tvær viljayfirlýsingar um samstarf sem á að stuðla að því að Íslendingar geti nýtt innlenda orkugjafa sem mest í samgöngum. Fyrri yfirlýsingin felur í sér samstarf við Mitsubishi Motors Corporation (MMC) og sú síðari við Mitsubishi Heavy Industries (MHI) og Mitsubishi Corporation (MC).

Báðar viljayfirlýsingarnar verða undirritaðar í tengslum við ráðstefnu um vistvænan akstur (Driving Sustainability) sem nú fer fram á vegum Framtíðarorku á Hilton hótelinu í Reykjavík. Þeir sem skrifa undir viljayfirlýsingarnar eru: Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Ichiro Fukue, aðstoðarforstjóri MHI, Tetsuro Aikawa, framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá höfuðstöðum MMC, Tunao Kojima, framkvæmdastjóri MC fyrir Evrópu, Mið-Austurlönd og Afríku, Knútur Hauksson, forstjóri Heklu, umboðsaðila Mitsubishi á Íslandi og Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri," að því er segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert