Tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni TU-160 flugu í gegnum loftrými Íslands í gær á heimleið frá Venesúela, eftir að hafa tekið þátt í heræfingum á Karíbahafi.
Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að vélarnar hafi tilkynnt komu sína inn í íslenskt loftrými fyrirfram. Hinsvegar voru þær ekki sýnilegar á meðan þær flugu í gegn, þ.e. gáfu ekki frá sér merki sem sýna för þeirra, en viðkoman var heldur ekki löng í þetta skiptið.
„Þeir hafa oft verið að fljúga upp undir heilan hring í kringum landið en núna gerðu þeir það ekki heldur sneyddu hjá í gegnum svæðið á milli Íslands og Færeyja. Þetta var eitt stysta flug sem þeir hafa tekið, rétt um klukkutími,“ segir Urður.
Bandaríkjamenn fara nú með loftrýmisgæslu á Íslandi samkvæmt samningum íslenskra stjórnvalda við NATO. Gert er ráð fyrir að gæsla fari hér fram að jafnaði fjórum sinnum á ári í 2-3 vikur í senn og voru Frakkar þeir fyrstu sem tóku hana að sér í maí síðastliðnum. Bandaríski herinn hefur verið hér frá 1. september en lýkur gæslunni nú eftir helgi.
Ekki var talin ástæða til að fljúga upp á móti rússnesku flugvélunum í þetta skiptið og fylgja þeim eftir eins og Frakkar gerðu þegar þeir komu inn í loftrýmið án þess að tilkynna komu sína í sumar.
Á rússneska fréttavefnum Pravda segir að sprengjuflugvélarnar hafi slegið tvö heimsmet á ferðum sínum til og frá Venesúela. Þær hafi flogið samfleytt í 15 klukkustundir, sem vélar af þessari gerð munu ekki hafa gert áður, og tóku auk þess 25 tonn af eldsneyti í áfyllingu í loftinu yfir Bretlandi.
Þar segir jafnframt að flogið hafi verið í samræmi við alþjóðlegar reglur um loftrými yfir hlutlausum hafsvæðum og ekki verið farið inn á lofthelgi annarra landa. Engin kjarnorkuvopn hafi verið um borð, þrátt fyrir að vélarnar hafi getu til að bera 12 langdrægar stýriflaugar.
Rússneskar sprengjuflugvélar hafa nú farið í 19 ferðir um loftvarnarsvæði Íslands síðan bandaríska varnarliðið fór héðan fyrir tæplega tveimur árum. Áður höfðu þær ekki flogið um loftvarnarsvæðið um árabil