Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur staðfesti einróma í dag samþykkt stjórnar Reykjavik Energy Invest frá í gær um stofnun opins fjárfestingasjóðs sem sjái um fjármögnun verkefna félagsins. Reykjavik Energy Invest er dótturfélag OR.
Á stjórnarfundi REI í gær var svohljóðandi tillaga samþykkt:
„Stjórn Reykjavík Energy Invest (REI) samþykkir að kanna möguleika á því að ganga til samstarfs við fagaðila um stofnun opins fjárfestingasjóðs sem hafi með höndum fjármögnun verkefna félagsins.
Áður en til stofnunar sjóðs komi, verði sérstakri ráðgjafanefnd falið að gera tillögu um nánari útfærslu og aðferðafræði við val samstarfsaðila. Ráðgjafanefndin taki þegar til starfa og skili áliti innan tveggja vikna. Stjórnin mun jafnframt hefja vinnu við að útfæra samningsmarkmið REI gagnvart væntanlegum viðsemjanda, láta verðmeta framlag REI/Orkuveitu Reykjavíkur (OR) til væntanlegs samstarfs og taka afstöðu til þess hvaða verkefni REI er hugsanlegt að verði fjármögnuð af sjóðnum. Niðurstöður þessarar vinnu verði bornar undir stjórn OR.
Leiði þessi vinna til samkomulags við aðila um stofnun fjárfestingarsjóðs skal samkomulagið borið undir stjórn OR og eftir atvikum eigendafund, feli það í sér breytingu frá áður markaðri stefnu eigenda um málefni REI.
Stjórn REI hefur unnið að stefnumótun fyrirtækisins undanfarna mánuði og skoðað hvernig verkefnum þess verði best fyrir komið til framtíðar. Sú vinna hefur sérstaklega tekið mið af niðurstöðu stýrihóps borgarráðs um málefni REI og Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem áhersla var lögð á þverpólitíska samstöðu, farsæla niðurstöðu og sátt um fyrirtækið.
Stjórnin fékk ráðgjafasvið Price Waterhouse Coopers (PWC) til að meta kosti og galla þeirra leiða sem til greina koma og stjórnin hefur haft til umfjöllunar. Var það niðurstaða ráðgjafanna að stofnun fjárfestingasjóðs væri ákjósanleg leið til að tryggja fjármögnun verkefna félagsins.
Markmiðið með stofnun sjóðsins er að hámarka afrakstur af orðspori og þekkingu OR og lágmarka fjárhagslega áhættu eigenda REI. Stefnt er að því að sjóðurinn verði opinn öllum fjárfestum á jafnréttisgrundvelli. Gert er ráð fyrir að starfsemi sjóðsins verði takmörkuð landfræðilega og í tíma og að stofnun hans útiloki ekki aðrar fjármögnunarleiðir."