Ákærur gegn Gunnari Björnssyni, sóknarpresti á Selfossi, voru þingfestar í Héraðsdómi Suðurlands í gærmorgun. Að sögn Daða Kristjánssonar, setts saksóknara hjá embætti ríkissaksóknara, fást engar upplýsingar upp gefnar um efni ákærunnar né heldur framgang málsins. Ljóst er þó að Gunnar lýsti sig saklausan af ákærum vegna meintra brota á almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum.
Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum kærðu fimm stúlkur, sóknarbörn, Gunnar. Aðeins var þó ákveðið að ákæra hann vegna ásakana tveggja. Í kjölfar þess að ríkissaksóknari staðfesti við Biskupsstofu að ákæra hefði verið gefin út á hendur Gunnari veitti biskup Íslands honum lausn frá störfum.
Lögum samkvæmt hefur ákvörðuninni verið vísað til nefndar um afstöðu til réttmætis hennar.