Veiking krónunnar hefur ekki farið fram hjá erlendu ferðamönnunum frekar en okkur Íslendingunum. Meðan margir kvarta yfir því hversu dýrt er að fara til útlanda, gista þar á hóteli, borða úti og versla, gleðjast ferðamennirnir yfir því hve hagstætt er að dvelja hér – a.m.k. hagstæðara en áður.
Ekki aðeins sýna tölur frá Global Refund á Íslandi að erlendir ferðamenn hafi eytt mun meiri peningum í ágúst samanborið við sama mánuð í fyrra heldur fengust þau svör hjá Icelandair og Iceland Express að bókanir í ferðir hingað frá útlöndum hefðu aukist samfara aukinni veikingu krónunnar.