Skipt um lögreglustjóra

Jóhann Benediktsson.
Jóhann Benediktsson. mbl.is/Kristinn

Til stendur að auglýsa stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum í apríl næstkomandi. Þá lýkur fimm ára skipunartíma Jóhanns R. Benediktssonar sem gegnt hefur embætti lögreglustjóra.

Eftir því sem næst verður komist hefur ekki áður verið auglýst laus staða forstöðumanns ríkisstofnunar vilji forstöðumaðurinn á annað borð sinna starfinu áfram.

„Ég get staðfest að mánudaginn 1. september var mér afhent formlega bréf frá dómsmálaráðherra þar sem mér var tilkynnt að staða mín yrði auglýst laus til umsóknar,“ sagði Jóhann í gær. „Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um þetta mál að svo stöddu.“

Athugasemdir við rekstur

Forsaga málsins er sú að dómsmálaráðherra gerði athugasemdir við að rekstur embættisins hefði farið fram úr fjárheimildum. Rekstraráætlun fyrir embættið árið 2008 var lögð fram í febrúar sl., en þar var gert ráð fyrir 210 milljóna viðbótarfjárveitingum. Ráðuneytið féllst ekki á forsendur rekstraráætlunarinnar og 4. mars fékk embættið sex daga til að koma með nýja áætlun.

Enginn botn fékkst í málið, þrátt fyrir fund Jóhanns og Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra með starfsmönnum. Og níu dögum síðar lagði dómsmálaráðherra til breytingar á skipan löggæslu-, öryggis- og tollgæslumála á Suðurnesjum. Í framhaldi af því óskaði Jóhann eftir viðræðum um starfslok við settan dómsmálaráðherra en skilaði ekki inn uppsögn. Ekki náðist samstaða í stjórnarflokkunum í vor um tillögur dómsmálaráðherra.

Jóhann var skipaður sýslumaður á Keflavíkurflugvelli árið 1999 og síðan gerður að lögreglustjóra á Suðurnesjum árið 2007. Samkvæmt heimildum hyggst hann ekki sækja um starfið þegar það verður auglýst.

Farið eftir lögum og reglum

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að verið sé að auglýsa stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjun og í því tilliti sé farið eftir lögum og reglum um að tilkynna verði fyrirætlunina með 6 mánaða fyrirvara. Spurður hvort þetta sé óvenjulegt, segir hann að spyrjandi verði að kanna það. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka