Vel heppnuð hópslysaæfing á Landspítala

Starfsmenn slysadeilda hlynna að „sjúklingum
Starfsmenn slysadeilda hlynna að „sjúklingum" á æfingunni í dag. mbl.is/Frikki

Hópslysaæfing sem fram fór á Landspítalanum í morgun heppnaðist vel, að því er segir í tilkynningu frá spítalanum. Gert var ráð fyrir að orðið hefði í Ártúnsbrekku í Reykjavík og var unnið samkvæmt nýrri viðbragðsáætlun spítalans.  Samkvæmt henni er gert ráð fyrir þremur stigum, viðbúnaðarstigi, virkjunarstigi og neyðarstigi.

Á viðbúnaðarstigi eru fáir kallaðir til en treyst á það starfsfólk og þekkingu sem er til staðar á vaktinni hverju sinni.  Á virkjunarstigi er útkallið stærra en samt um mikinn sveigjanleika að ræða.  Á neyðarstigi er umfangið svo mikið að nauðsynlegt er að virkja Landspítala að fullu.

Á æfingunni var í fyrsta skipti notað nýtt fjarskiptaskipulag fyrir Landspítala.

Æfingin miðaðist við 52 slasaða og voru þeir fluttir á bráðamóttökur spítalans í Fossvogi og við Hringbraut. Á spítalann voru 20 mikið slasaðir, 20 nokkuð slasaðir og 12 minna slasaðir.  Þegar æfingunni lauk kl.12:20 höfðu 5 manns verið fluttir í aðgerð.  Látnir voru fjórir.   Sjúkrahús á suðvesturhorni landsins voru í viðbragðsstöðu en ekki kom til þess að það þyrfti að flytja sjúklinga þangað. 

Landspítali stóð að æfingunni en margir fleiri tóku þátt í henni, svo sem Lögreglan í Reykjavík, embætti Ríkislögreglustjóra, Slökkvilið höfuðborgarsvæðins, Rauði kross Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins og Samhæfingarstöðin við Skógarhlíð.

Æfingin tókst mjög vel. Næstu daga verður safnað saman upplýsingum um hana, hvað tókst vel og hvað miður til þess að læra af reynslunni og bæta úr þar sem kann að vera þörf á því, meðal annars í sjálfri viðbragðsáætlun spítalans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert