Bændur eru langt komnir með að þreskja það korn sem ræktað var í Skagafirði í sumar. Að sögn héraðsfréttablaðsins Feykis stefnir í algjöra metuppskeru hvað varðar magn á hvern hektara, sem og heildarmagn korns þar sem aldrei hefur verið sáð í jafn stórt svæði og í vor.
Liðlega fjörtíu bændur stunda kornrækt í Skagafirði að einhverju marki. Haft er eftir Eiríki Loftssyni, ráðunauti hjá Leiðbeiningarmiðstöðinni, að líklega hafi verið sáð í vel á fimmta hundrað hektara lands. Þá sé kornið mikið að gæðum því skilyrði til ræktunar hafi verið einstök í sumar.
Bygg er eina korntegundin sem ræktuð er í Skagafirði og tilraunir með hin ýmsu afbrigði hafa staðið yfir allt frá árinu 1993.
Fréttavefurinn Skagafjörður.com