Tveir litháískir karlmenn, sem nú sitja bak við lás og slá á Litla-Hrauni, verða væntanlega sendir til föðurlands síns í vikunni þar sem þeir munu ljúka við afplánun á dómum sem þeir hlutu hér á landi, samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun. Þetta eru fyrstu fangarnir sem sendir eru til Litháens samkvæmt samkomulagi við þarlend stjórnvöld.
Litháísk stjórnvöld samþykktu í febrúar að Litháar sem dæmdir eru til refsingar hér á landi taki út refsingu sína í heimalandi falli þeir undir ákvæði samnings Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna.
Verið er að vinna að því að ljúka formsatriðum til að hægt sé að flytja fimm aðra litháíska fanga.
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að búast megi við því að styttri tíma taki að afgreiða mál þeirra.
Litháarnir tveir sem væntanlega fara utan í vikunni eiga, hvor um sig, eftir að afplána um fimm ár af sinni refsingu. runarp@mbl.is