Fjölmargir Íslendingar hafa sótt um störf í nýrri 22.000 fermetra verslun Bauhaus sem opnar í desember. Um 650 manns sóttu um helstu stjórnendastöður í versluninni og er búið að ráða í þær. Nú stendur yfir leit að 150 starfsmönnum til viðbótar en um 1.250 manns hafa sýnt þeim störfum áhuga.
„Við höfum fengið inn yfir 1.250 umsóknir og erum mjög stolt af því. Um er að ræða breiðan og hæfan hóp umsækjenda með afar sterka ferilskrá. Þetta ber vitni um mikinn áhuga á því að starfa hjá Bauhaus“ segir Halldór Óskar Sigurðsson, nýráðinn framkvæmdastjóri, í tilkynningu.
Byggingarvöruverslunin í Reykjavík verður sú stærsta á Norðurlöndunum, 22.000 fermetrar að flatarmáli og með yfir 120.000 vörutegundir á boðstólum. Verslunin skiptist í byggingarmarkað, blóma- og garðasvæði og innkeyrsludeild, að því er segir í tilkynningu.
Bygging á hinni nýju Bauhaus-verslun í Grafarholti hófst haustið 2007 og mun ljúka í desember 2008.